TÍMALAUS ÍSLENSK HÖNNUN | SENDUM FALLEGAR GJAFIR UM ALLT LAND

SJÁLFBÆRNI

AS WE GROW - Umhirða

 

Við hjá AS WE GROW hugsum um hvert skref sem við tökum, frá hönnun til efnisvals og frá framleiðslu á flíkinni til áframhaldandi lífdaga hennar.

Við höldum framleiðslu okkar í algjöru lágmarki og því framleiðum við eftir pöntunum. Við framleiðum ekki til þess að safna upp lager heldur með langtíma notkun í huga. Við veljum besta hráefnið sem í boði er til þess að tryggja ævilanga endingu vörunnar. Hráefnin eru framleidd án aðkomu spilli- og eiturefna, líkt og tilbúins áburðar, skordýraeiturs eða laufeyðis. Þegar kemur að því að lita hráefnin notum við litarefni sem eru laus við málma og uppfylla öll ströngustu skilyrði umhverfisverndar.

Sérkenni hönnunar AS WE GROW felst í því að stærðirnar duga allt að því helmingi lengur en stærðir hefðbundinna barnafata. Þetta gerir það að verkum að barnið getur haldið áfram að nota flíkurnar í lengri tíma á meðan það vex úr grasi, sem orsakar minni sóun og færri kostnaðarsamar verslunarferðir fyrir foreldrana.

Í hönnun okkar horfum við til fyrri kynslóða, nýtni þeirra og útsjónarsemi og því hvernig gildi hverrar flíkur eykst til muna þegar hún er notuð af fleiri en einu barni. Langur líftíminn hefur gríðarlega góð áhrif á umhverfið auk þess að tilfinningalegt gildi flíkanna eykst með hverju barni og hverri sögu. Það er ósk okkar og von að flíkurnar frá okkur verði hluti af sögu fólks og tengi fjölskyldur og kynslóðir.

Viðgerð – endurnýting – nýtni, þetta eru lykilorðin þegar kemur að því að hirða um föt og hluti og samtímis hefur það góð áhrif á umhverfið og náttúruna. Til þess að hámarka líftíma AS WE GROW varanna erum við í samstarfi við ellilífeyrisþega sem gera við þær flíkur sem þess þarfnast og þar með lengja notkunarmöguleika þeirra.